Í lok febrúar 2020 voru undirrituð kaup Saltkaupa Nordic ehf. á NOKK ehf. og í júlí sama ár tók Hilmar Þór Hilmarsson jr. framkvæmdastjóri við góðu búi af Svavari Ólafssyni, stofnanda og aðaleiganda fyrirtækisins (NOKK).

Starfsfólk NOKK hefur í gegnum tíðina sérhæft sig í þjónustu við íslenska matvælaframleiðendur með sérstaka áherslu á kjötiðnaðinn. Sérhæfðar umbúðir, íbætiefni, krydd, marineringar og vélar voru hugsuð sem kærkomin viðbót við vöruflóru Saltkaupa Nordic og tilhlökkun fylgdi því að vinna frekar með því frábæra fólki sem hefur tekið stóran þátt í uppbyggingu fyrirtækisins frá stofnun þess árið 2005.

Fljótlega í kjölfar kaupanna fór COVID-19 heimsfaraldurinn að gera vart við sig og hafa fyrirtækin verið rekin með óbreyttu sniði á sitthvorri starfsstöðinni með góðum árangri.

Nú í upphafi árs 2022 sameina fyrirtækin krafta sína undir kennitölu Saltkaupa Nordic (kt: 620818-0890) en undir nýju nafni; BEWI Iceland ehf.

Það er okkur mikil tilhlökkun að sameina krafta okkar undir sama hatti og nýta þau tækifæri sem felast í samlegð og þekkingu starfsfólks á þeim mörkuðum sem það hefur lifað og hrærst í um áratuga skeið. Okkar markmið er að halda áfram að byggja upp okkar góða orðspor, halda hátt á lofti þeim grunn gildum, að þjónusta okkar traustu viðskiptavini með langtíma samstarf að leiðarljósi. Því ætlum við að ná með því að bjóða uppá framúrskarandi þjónustu, góða og áreiðanlega vöru á hagkvæmum kjörum um leið og við fylgjumst með og þróumst með þeim straumum og stefnum sem eru á markaðnum.